Velkomin á sýningaropnun!

CON-TEXT – norræn bókverk

Hugmyndin að sýningunni CON-TEXT, sem nú má sjá í Norræna húsinu, kviknaði hjá hópi danskra listakvenna sem starfa m.a. að gerð bókverka. Hópurinn tengdist bókverkafólki vítt og breitt um Norðurlönd í kjölfar þátttöku á Alþjóðlega bókverkaþríæringnum í Vilnius, en nokkrir íslensku listamanna sem hér sýna hafa tekið þátt í honum.

Verk af þríæringnum í Vilnius 2009 fóru víða og var sýningin m.a. sett upp í KunstCentret Silkeborg Bad í Danmörku í september 2009. Yfirskrift fimmta þríæringsins var TEXT og var hún kveikjan að sýningunni CON-TEXT sem opnuð var á sama tíma í Kulturspinderiet í Silkeborg. Þar sýndu tuttugu og fjórir norrænir listamenn verk sín. Að lokinni þeirri sýningu var hluti verkanna til sýnis á Háskólabókasafninu í Umeå í Svíþjóð og nú eru flest verkin frá sýningunni í Silkiborg hingað komin.

Listamennirnir tuttugu og fjórir höfðu frjálsar hendur um hvernig þeir unnu með þema sýningarinnar, CON-TEXT, en áhorfandanum er látið eftir að túlka samhengið. Enska orðið context, eða samhengi, er dregið af latnesku orðunum con = saman og textere = að vefa. Hér vefa ólíkir listamenn saman þræði sína og sameinast í áhuga á bókverkinu sem tjáningarformi.

Auk þess að tengja verkin ákveðnu þema var hverjum listamanni send lítil pappataska sem breyta átti í bókverk. Auðveldlega má líta á töskuna sem táknmynd fyrir ferðalagið sem verkin hafa hafið frá smiðju listamannanna. Eins má skoða sköpunina sem einskonar ferðalag: farangurinn er margvíslegur og innihaldið opinberast aðeins þeim sem lýkur upp hirslunni.

Bókverk er samheiti yfir myndverk sem tengjast á einhvern hátt bókinni sem formi og hugtaki. Mikil fjölbreytni liggur í nálgun hvers listamanns til formsins. Flest verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera einstæð, aðeins til í einu eintaki, með augljósu yfirbragði handverksins. Þar er að finna skúlptúra sem draga dám af bókinni sem þrívíðu formi; myndlistarverk sem hafa að grunni byggingu bókarinnar: blaðsíður, kápu og band; pappírsverk sem tengjast efniviði bóka, trefjum, skinni og textíl; og bókverk sem byggjast á eiginleikum pappírs sem forma má með brotum og skurði. Allar aðferðir myndlistar nýtast í bókverkagerð: málun, teikning, klippitækni, ljósmyndun og þrykkaðferðir ýmiskonar, textílaðferðir, mótun og svo mætti lengi telja.

Skilgreining á bókverki verður seint einföld eða tæmandi enda ekki æskilegt að marka listformi þröngan bás. Myndir og tákn voru áður fyrr klöppuð í stein og dregin upp á bókrollur en um leið og rafrænt lesefni tekur æ meira rými kann hugtakið bók enn að taka á sig nýjar myndir, – allt eftir samhenginu.

CON-TEXT – Íslenski sýningarhópurinn © Arkir

Sýningin CON-TEXT – norræn bókverk opnar 27. febrúar í Norræna húsinu. Sýningin er opin daglega frá 12:00 til 17:00 alla daga nema mánudaga. Sýningunni lýkur 24. mars. Sjá nánar á www.norraenahusid.is

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s