SVARTUR mínus – BLACK minus

Fréttatilkynning // The press release – sorry, no translation available.

SVARTUR mínus í sýningarsal Íslenskrar grafíkur

Bókverkafélagið ARKIR opnar sýningu á nýjum verkum í sýningarsal Íslenskrar grafíkur, Tryggvagötu 17, fimmtudaginn 27. október. Sýningin er opin fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14.00 til 18.00 og stendur til 13. nóvember.

Vorið 2008 héldu ARKIR bókverkasýningu sem bar heitið HVÍTUR+. Verkin á sýningunni áttu það sameiginlegt að tengjast hvíta litnum, mögulega með jákvæðri samlagningu litar. Nú þremur árum síðar er það andstæðan, svartur mínus, sem tengir verkin. Þema sýningarinnar er túlkað á margvíslegan hátt en svarti liturinn er allsráðandi, aðlaðandi og óhugnanlegur í senn. Í bókverkunum birtast svartir sauðir, myrkar hliðar og skuggaleg teikn, dularfullar nætur, dimmar raddir og svartagall, galdrar úr bleki og tjöru.

Verk á sýningunni eiga: Anna Snædís Sigmarsdóttir, Arnþrúður Ösp Karlsdóttir, Áslaug Jónsdóttir, Bryndís Bragadóttir, Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Ingiríður Óðinsdóttir, Jóhanna M. Tryggvadóttir, Sigurborg Stefánsdóttir og Svanborg Matthíasdóttir.

ARKIR er hópur listakvenna sem hittast reglulega og bera saman bækur sínar. Hópurinn hefur um margra ára skeið stundað bókverkagerð af ýmsum toga. Meðlimir hópsins sinna öllu jafna fjölbreyttri listsköpun á sviði málara- og grafíklistar, textíllistar, ritlistar og myndlýsinga.

Bókverk er samheiti yfir myndverk sem tengjast á einhvern hátt bókinni sem formi og hugtaki. Listamennirnir nálgast bókverkið á afar ólíkan hátt. Flest verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera einstæð, aðeins til í einu eintaki. Þar er að finna skúlptúra sem draga dám af bókinni sem þrívíðu formi; myndlistarverk sem hafa að grunni byggingu bókarinnar: blaðsíður, kápu og band; pappírsverk sem tengjast efniviði bóka, trefjum, skinni og textíl; og bókverk sem byggjast á eiginleikum pappírs sem forma má með brotum og skurði. Allar aðferðir myndlistar nýtast í bókverkagerð: málun, teikning, klippitækni, ljósmyndun og þrykkaðferðir ýmiskonar, textílaðferðir, mótun og svo mætti lengi telja.

Sýningarundirbúningur – Exhibition preparations

Það er komið að því: ARKIRNAR opna sýningu með nýjum verkum á morgun. Sýningin ber heitið SVARTUR mínus og kallast þannig á við sýninguna HVÍTUR+ sem ARKIRNAR héldu Á Skörinni árið 2008. Síðan hefur talsvert skólpvatn runnið til sjávar og ber sýningin tímanna merki. Auðvitað hefur verið unnið sleitulaust við undirbúninginn síðustu vikur og daga. Þó þema og heiti sýningarinnar sé drungalegt í meira lagi, var talsverður fögnuður í húsi og létt yfir mannskapnum þegar verkin birtust eitt af öðru í sýningarsalnum. Opnum á morgun! Jibbíkóla!

We are there! We are opening an exhibition of book art tomorrow! In 2008 we had an exhibition titled HVÍTUR+ (White+). This time it’s SVARTUR mínus (BLACK minus). Despite the obvious negative and morbid theme we were quite lighthearted and exited as we viewed the artwork in the exhibition room.